Joey Barton var svo sannarlega einstakur fótboltamaður og hikaði sjaldan við að láta andstæðinga sína heyra það og því fylgdi oft ofbeldi.
Barton hefur tjáð sig um atvik sem átti sér stað árið 2005 í Taílandi er hann slóst við liðsfélaga sinn á þeim tíma, Richard Dunne.
Barton og Dunne ræddu við stuðningsmann Everton í Taílandi sem endaði einhvern veginn með því að þeir tveir létu hendurnar tala.
Aðeins degi seinna fékk Barton símtal frá stjórnarformanni Man City og hótaði Stuart Pierce, stjóri Man City, að henda leikmanninum í fangelsi svo hann myndi læra af eigin mistökum.
Guðmundur Benediktsson, fyrrum knattspyrnumaður, lét fræg ummæli falla á sínum tíma og kallaði þar eftir því að Barton væri einmitt hent í fangelsi.
Það var í leik Man City og Queens Park Rangers en Barton lék þá með því síðarnefnda og hagaði sér eins og hálfviti á velli. Myndbandið má sjá neðst í fréttinni.
,,Ég lenti í slagsmálum í Taílandi við Richard Dunne og stuðningsmann Everton. Ég held að ég hafi slegið stuðningsmanninn sem varð til þess að ég og Richard fórum í slag,“ sagði Barton.
,,Eftir það þá fékk ég símtal frá stjórnarformanni Manchester City. Ég flaug heim til Manchester svo að fjölmiðlarnir myndu ekki ná í mig.“
,,Stuart Pierce vildi henda mér í fangelsi í Taílandi svo ég myndi læra mína lexíu. Það gerðist að lokum aldrei en hann hefur sjálfur viðurkennt það.“