Lionel Messi hefur farið á kostum í fyrstu leikjum sínum með Inter Miami í Bandaríkjunum. Fögn hans undanfarið hafa hins vegar vakið athygli.
Hinn 36 ára gamli Messi gekk í raðir Inter Miami frá Paris Saint-Germain í sumar og hefur síðan skorað níu mörk í sex leikjum.
Svokölluð ofurhetjufögn Messi eftir þessi mörk hafa mikið verið í umræðunni. Hann hefur nú útskýrt þau.
„Börnin mín þrjú eru enn í fríi frá skóla svo við horfum á ofurhetjubíómyndir á hverju kvöldi,“ segir Messi.
„Það var þeirra hugmynd að eftir að ég skoraði myndi ég gera ofurhetjufagn. Ég geri þetta bara í heimaleikjum, þegar þau eru á svæðinu og við getum deilt þessum augnablikum.“
Hér að neðan má sjá dæmi um fögnin.