Vestri og Afturelding gerðu 2-2 jafntefli í hörkuleik í Lengjudeild karla í fyrrakvöld. Umdeilt atvik kom upp seint í leiknum og var það tekið fyrir í Lengjudeildarmörkunum á 433.is.
Vestri leiddi 2-0 í hálfleik með mörkum frá Silas Songani og Vladimir Tufegdzic en Mosfellingar komu til baka með mörkum frá Ivo Braz og Elmari Cogic. Lokatölur 2-2.
Á 84. mínútu leiksins vildu heimamenn sjá Ásgeir Frank Ásgeirsson í liði Aftureldingar fjúka út af með rautt spjald fyrir tæklingu sína á Fatai Gbadamosi.
„Þetta er bara viðbjóður,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson í þættinum um tæklinguna.
Hrafnkell Freyr Ágússtsson tók til máls en þeir félagar hafa enga trú á að um viljaverk hafi verið að ræða hjá Ásgeiri.
„Hann er ekkert sá sneggsti. Hann er ekki að reyna að meiða hann en þetta er allt of mikið. Þetta átti að vera beint rautt og jafnvel tveir leikir.“
Atvikið og umræðuna má sjá í spilaranum að ofan en þátturinn í heild er hér að neðan.