Rafel Victor, leikmaður Njarðvíkur, var valinn leikmaður umferðarinnar í nýjasta þætti Lengjudeildarmarkanna hér á 433.is.
Farið var yfir leiki 17. umferðar í þættinum og í lok þáttar var Rafael Victor valinn bestur í umferðinni eftir að hafa skorað tvö marka Njarðvíkur í gífurlega mikilvægum 2-3 sigri á Selfyssingum í fallbaráttunni.
„Hann var að gera svo mikið meira en að skora þessi tvö mörk. Hann hélt í boltann undir lokin þegar þeir þurftu þess, hann var oft að stinga sér inn fyrir og olli svakalegum usla. Hann var kominn niður að hornfána að verjast í lokin sem ég hef ekki séð frá honum áður,“ sagði Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur þáttarins, um valið.
Rafael Victor var nálægt því að fara frá Njarðvíkingum þegar Arnar Hallsson var þjálfari en gengið í endurnýjun lífdaga eftir að Gunnar Heiðar Þorvaldsson tók við.
„Þetta er einhver mesti sigurvegari sumarsins,“ sagði Hrafnkell.
Leikmaður umferðarinnar í Lengjudeildarmörkunum er í boði Slippfélagsins