Richard Arnold stjórnarformaður Manchester United hefur tjáð starfsfólki félagsins það að planið sé að taka Mason Greenwood aftur inn og leyfa honum að æfa og spila fyrir félagið. The Athletic segir frá.
United segir í yfirlýsingu að rannsókn félagsins sé að klárast og að málið verði kynnt innan tíðar.
Greenwood hefur ekki æft eða spilað með United í átján mánuði eftir að unnusta hans sakaði hann um nauðgun og ofbeldi í nánu sambandi.
Málið var fellt niður fyrr á þessu ári og hefur Manchester United síðan skoðað málið hjá sér. Félagið hefur borgað Greenwood 10 milljónir á viku á meðan málið er í skoðun.
Arnold ætlaði sér að taka upp myndband þar sem hann útskýrir málið fyrir stuðningsmönnum og leikmönnum félagsins.
Félagið ætlaði sér að kynna þetta 4 ágúst en hefur nú seinkað þessu og segir í umfjöllun Athletic að félagið vilji kynna málið betur fyrir styrktaraðilum og helstu hluthöfum.
Félagið vill einnig kynna málið betur fyrir kvennaliði félagsins en lykilmenn í liðinu eru að taka þátt í Heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Manchester United segir eftir frétt Athletic að málið sé enn í skoðun en en Greenwood er 21 árs gamall en endurkoma hans virðist nálgast hjá félaginu þó allt geti gerst fyrir formlega tilkynningu.