Höskuldur á átta A-landsleiki að baki en Gísli fjóra. Sá síðarnefndi sagði frá því í þættinum þegar Arnar Þór Viðarsson, þá landsliðsþjálfari, hringdi í hann og kallaði hann inn í landsliðið í fyrsta sinn árið 2021.
„Þegar Óskar (Hrafn Þorvaldsson) kom inn (sem þjálfari Breiðabliks) og ég sá að hann væri að fara að gera eitthvað setti ég mér markmið. Ég ætlaði að verða Íslandsmeistari og spila landsleik áður en ég hætti,“ sagði Gísli.
Það kom Gísla hins vegar mjög á óvart þegar Arnar Þór tjáði honum að hann væri að fara að fara í sína fyrstu A-landsliðsferð.
„Landsliðið var aldrei að fara að gerast, bara ekki séns. En svo hringir hann í mig og spurði hvort ég vildi ekki koma með til Bandaríkjanna. Ég hélt að það væri einhver að grínast í mér,“ rifjaði Gísli upp.
Það tók Gísla tíma að átta sig á þessu. „Hvernig veit ég að þetta ert þú?“ spurði hann Arnar Þór, sem svaraði að númer sitt væri að finna á heimasíðu KSÍ.
„Það voru alvöru kallar í þessari ferð og þetta var sturlað umhverfi. Við spiluðum við Mexíkó í Dallas fyrir framan 40 þúsund manns. Ég hafði aldrei heyrt jafn mikil læti. Þetta var bara ruglað.“