Formaður Hattar/Hugins, Guðmundur Björnsson Hafþórsson, vakti athygli á þessu á Twitter og Mannlíf fjallaði þá um það. Mikael ræddi þetta í Þungavigtinni og segir málið storm í vatnsglasi.
„Það var nú bara þannig að boltinn var á einhverjum standi þarna og þegar ég vildi fá boltann á völlinn var enginn hjá standinum. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert búinn að kíkja hver væri boltasækir í þessum leik. Ég öskraði „komdu með helvítis boltann“ eða eitthvað svoleiðis. Enda baðst ég afsökunar strax,“ sagði Mikael um atvikið í Þungavigtinni.
Mækarinn lét stelpu greyið heyra það, enda hljóp hún í burtu grátandi stuttu síðar. – hún átti það alls ekki skilið, erum að tala um sekúndur. Mikki skammaðist sín svo sannarlega, en það breytir því ekki að þetta var galin hegðun.
— Gummó (@Dullarinn) August 12, 2023
„Að formaður Hattar skuli fara á Twitter og skrifa um þetta talar fyrir sig sjálft. Ég baðst afsökunar strax og svo hélt leikurinn bara áfram. Eftir leik báðu þeir mig um að koma að tala við stelpuna og biðja hana afsökunar. Það var það fyrsta sem ég ætlaði að gera. Þá var hún bara farin. Ég sendi kveðju á þjálfara Hattar um kvöldið og sagði honum að skila afsökunarbeiðni og að ég gæti alveg heyrt í stelpunni eða foreldrum hennar.“
Mikael sagði þó hegðun foreldra þeirra barna sem voru boltasækjar í leiknum ekki viðunandi.
„Foreldrar barnanna sem voru boltasækjar í þessum leik voru einfaldlega að biðja þau um að láta okkur ekki hafa boltann.“
Mikael var þá spurður út í frétt Mannlífs sem tók málið upp.
„Að sjálfsögðu myndi enginn annar miðill nenna að koma með eitthvað svona, enda er þetta ekki neitt,“ svaraði Mikael beittur.
KFA er á toppi 2. deildarinnar og var að tapa sínum fyrsta leik. Mikael er með breitt bak og lætur málið lítið á sig fá.
„Ég væri ekki í þessu ef ég myndi ekki þola eitthvað svona.“