Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, fékk rautt spjald á hliðarlínunni gegn FH fyrir viku síðan. Hann fékk þar með eins leiks bann sjálfkrafa en ekki er víst hvort það verði lengt í því. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kemur saman á þriðjudögum og ætti niðurstaða um það því að liggja fyrir í dag.
Arnar fékk rauða spjaldið fyrir hegðun á hliðarlínunni gegn FH. Hann ræddi atvikið í viðtali við Bítið á Bylgjunni, þar sem hann iðraðist mjög.
„Mesta refsingin fyrir mig er í rauninni bílferðin heim eftir svona leiki. Ég kvíði svo fyrir því að horfa á þetta í uppgjörsþætti eða lesa um þetta í fjölmiðlum. Ég skammast mín svo mikið fyrir þetta og það er ekkert grín. Ég kvíði svo fyrir því að sjá mig hegða mér eins og fáviti en á sama tíma er það bara fín refsing fyrir mig. Á sama tíma hugsa ég líka mikið um greyið dómarana sem þurfa að þola þetta frá okkur,“ sagði Arnar meðal annars í viðtalinu.
Arnar tók út bannið í 6-1 sigri Víkings á HK um helgina og eins og staðan er verður hann á hliðarlínunni í undanúrslitum bikarsins gegn KR annað kvöld, nema ákvörðun Aganefndar kveði á um annað.
Sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson kom með áhugaverða kenningu í Þungavigtinni
„Ég elska Arnar Gunnlaugsson og allt það, besti leikmaður sem ég hef spilað með á ævinni ásamt kannski tveimur öðrum, en er þetta viðtal í Bítínu á mánudegi þegar Aganefnd kemur saman á þriðjudegi tilviljun? Nei,“ sagði Kristján beittur.
Aðrir meðlimir þáttarins tóku hins vegar ekki undir þetta.
„Ég held að góður Víkingur, Heimir Karlsson, hafi bara ákveðið að fá hann í viðtal,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason.
Mikael Nikulásson tók þá til máls.
„Það er bara tilviljun. Heldur þú að KSÍ færi að stytta leikbannið hjá honum, ef þeir ætla að setja hann í meira en einn leik, af því hann fór í eitthvað viðtal? Stjáni, þú ert ekkert heimskur svo ekki vera að spila þig heimskan.“