Arsenal gæti verið án Jurrien Timber í nokkra mánuði ef marka má nýjustu fréttir.
Þetta er mikið áfall fyrir Mikel Arteta og Arsenal. Timber, sem kom frá Ajax í sumar, var frábær á undirbúningstímabilinu og í leiknum gegn Manchester City um Samfélagsskjöldinn.
Timber var í byrjunarliði í fyrsta leik Arsenal í ensku úrvalsdeildinni gegn Nottingham Forest um helgina en fór meiddur af velli snemma í seinni hálfleik vegna meiðsla á hné.
Hann hefur farið í fjölda rannsókna hjá Arsenal til að komast að því hversu alvarleg meiðslin eru. Daily Mail segir hins vegar frá því að á bak við tjöldin hafi menn miklar áhyggjur af því að meiðslin séu alvarleg og að Timber verði frá í einhverja mánuði frekar en vikur.
Arsenal vann leikinn gegn Forest 2-1 og mætir Crystal Palace í sínum öðrum leik á tímabilinu eftir slétta viku.