Það er athyglisvert að lesa viðtal við konu að nafni Jane Benwell sem býr fyrir utan heimavöll Nottingham Forest á Englandi.
Það er lítið íbuðarhverfi við hliðina á velli Forest þar sem Jane hefur búið í mörg ár og hefur kynnst mörgum leikmönnum liðsins vegna þess í gegnum tíðina.
Roy Keane, goðsögn Manchester United, lék til að mynda með Forest og var hann nágranni Jane í dágóðan tíma þá 19 ára gamall.
Jane talar um að Keane hafi verið mjög erfiður unglingur og voru rifrildin þónokkur á þessum tíma.
,,Hann svaraði þér alltaf til baka um leið, jafnvel þegar þú baðst hann um að þegja. Það er fyndið að horfa á hann í sjónvarpinu í dag og hugsa til baka,“ sagði Jane.
,,Annar sem bjó þarna sem unglingur var Sean Dyche [stjóri Everton] en ég man ekki eftir að hafa lent í útistöðum við hann.“
Jane sem er 69 ára gömul þurfti í eitt skipti að strunsa inn á skrifstofu Paul Hart, stjóra Forest, á þeim tíma og kvarta yfir ungum leikmanni í liðinu.
Hann hafði klætt sig úr að neðan á götunni fyrir utan íbúðirnar og var berrassaður fyrir framan unga krakka sem bjuggu í hverfinu.
,,Það voru börn á svæðinu á nákvæmlega þessari stundu – þetta var óásættanlegt. Ég gekk inn á skrifstofuna og heimtaði að fá að tala við stjórann.“
,,Ég nefndi við hann að einn af hans leikmönnum væri að afklæða sig á almannafæri. Hann hlustaði á mig og kinkaði kolli. Hann spurði hvort ég vissi hver strákurinn væri en ég hafði ekki hugmynd.“
Jane bætir svo við að Hart hafi fundið út hver sökudólgurinn væri og var hann um leið rekinn frá félaginu. Stjórinn baðst afsökunar og bað Jane um að láta sig vita ef eitthvað slíkt myndi koma fyrir aftur.