Marco Silva, stjóri Fulham, hefur í raun staðfest það að Aleksandar Mitrovic sé ekki á förum frá félaginu.
Mitrovic hefur verið sterklega orðaður við brottför frá Fulham í sumar og þá til Al Hilal í Sádí Arabíu.
Serbinn á að hafa neitað því að mæta til æfinga hjá Fulham en hann vildi að félagið myndi taka 25 milljóna punda tilboði frá Al Hilal.
Enska úrvalsdeildin er nú að fara á fullt og verður Mitrovic til taks fyrir leik gegn Everton um helgina.
,,Hann er tilbúinn að spila, hann er byrjaður að æfa með liðsfélögum sínum. Hann er sá Mitrovic sem ég þekki,“ sagði Silva.
,,Ég ætla ekki að ljúga að ykkur, hann fékk tilboð sem hann íhugaði sterklega. Stundum er ekki auðvelt fyrir leikmenn að halda einbeitingu.“
Það eru gleðifréttir fyrir marga ‘Fantasy Football’ spilara en Mitrovic er gríðarlega vinsæll í þeim leik.