Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley verða í eldlínunni annað kvöld í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar. Þar er andstæðingurinn Manchester City.
Burnley er nýliði í ensku úrvalsdeildinni eftir stutt stopp í B-deildinni, en liðið rúllaði henni upp undir stjórn Vincent Kompany.
„Þetta er geggjað að byrja á þessum leik. Opnunarleikur á föstudagskvöldi á móti meisturunum, það verður ekki mikið betra,“ segir Jóhann Berg Guðmundsson við Þungavigtina um viðureign morgundagsins gegn þreföldum meisturum City.
Burnley vonast til að mikið álag á City á öllum vígstöðvum í vor komi til með að hjálpa.
„Þeir voru að spila langt fram á sumar, unnu þessa þrennu og það getur verið erfitt að gíra sig í gang. En við vitum hversu góðir þeir eru og við þurfum að eiga algjöran toppleik til að eiga einhvern séns.“
Burnley spilar afar skemmtilegan fótbolta undir stjórn Kompany og mun Belginn ekki bregða út af vananum gegn sínu fyrrum liði á morgun.
„Hann hefur sinn fótbolta og veit hvernig hann vill spila. En auðvitað eru ákveðnir hlutir sem við þurfum að vera með á hreinu á móti liði eins og City. Þeir eru eins og við, breyta um leikkerfi hvenær sem er í leiknum og við þurfum að geta gert það líka,“ segir Jóhann.