Í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn gegn KR var Óskar spurður út í hugsanleg leikmannakaup.
„Það verður bara að koma í ljós. Menn eru alltaf að skoða og spá og spekulera og reyna að finna út hvernig þeir ætla að styrkja liðið. Bæði til skamms tíma í álaginu núna og til lengri tíma. Það er ekkert í hendi.
En það er best að tala við aðra um það hjá Breiðabliki, ég er bara að þjálfa þetta lið,“ sagði Óskar.
Málið hefur verið tekið fyrir í hlaðvarpsþáttum hér á landi og var til að mynda rætt í Dr. Football. Þar veltir Hjörvar Hafliðason því upp hvort núningur sé á milli Óskars og Ólafs Kristjánssonar, yfirmanns knattspyrnumála hjá Breiðabliki.
„Ég man að fyrst þegar Ólafur kom þarna inn á skrifstofuna að þá hugsuðum við að þessir gæjar væru ekki að fara að vinna saman, þetta væri eins og að ráða Arsene Wenger sem yfirmann Jose Mourinho, þetta væri ekki að fara að virka,“ segir Hjörvar. „Það eru búnar að vera litlar pillur,“ bætir hann við.
Arnar Sveinn Geirsson var einnig í setti. Hann telur það ekki rétt hjá Óskari að hann hafi lítið að segja um leikmenn sem koma til félagsins.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem maður heyrir eitthvað svona,“ segir Arnar.
„Ég held að það hafi verið alveg ljóst frá upphafi að þetta kombó (samstarf Óskars og Ólafs) myndi ekki ganga vel. Ég held samt að þetta sé algjört bull hjá Óskari. Ætlarðu virkilega að segja mér að Óskar hafi ekkert að segja um hvaða leikmenn hafi verið að koma? Ég held að hann hafi nánast allt um það að segja og ég skil ekki af hverju hann er að segja þetta.“
Hjörvar bætir svo við: „Þið heyrið að Óskar er drullufúll að hafa ekki fengið neina leikmenn.“