Manchester United goðsögnin og sparkspekingurinn Gary Neville hefur áhyggjur af liðinu á komandi tímabili. Hann heldur enn í vonina um að Harry Kane mæti á svæðið frá Tottenham.
Kane var orðaður við United fyrr í sumar en ef hann fer er nú líklegast að hann endi hjá Bayern Munchen.
Neville hefur áhyggjur af lykilstöðum í liði United.
„Andre Onana og Rasmus Hojlund. Þetta eru tvær stöður sem verður fylgst mest með og þeir þurfa að aðlagast. Ég er samt stressaður fyrir þessu tímabili því þetta eru tveir leikmenn í mjög mikilvægum stöðum sem hafa ekki sannað sig,“ segir Neville.
Hann vonast til að United reyni að fá Kane á síðustu stundu.
„United þarf Kane. Þeir þurfa líka Rasmus Hojlund til að vera honum til halds og trautst, spila 25-30 leiki en hann spilaði ekki alla leiki fyrir Atalanta á síðustu leiktíð. Ég hef áhyggjur af því að við séum með þennan strák frammi ef ég á að vera hreinskilinn. Það er mikil ábyrgð á herðum hans.
Það munu allir fylgjast með honum og það þarf að létta pressunni aðeins af honum. Með Kane getur United elt Arsenal og Manchester City.“
Neville sér einfaldlega ekki fyrir sér að Kane endi hjá Bayern.
„Ef hann vill ekki verða markahæsti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar er ég mjög hissa. Bayern er risafélag en ég sé þetta ekki gerast.“