Sjónvarpskonan vinsæla Laura Woods sagði á dögunum frá furðulegum skilaboðum sem hún hefur fengið á samfélagsmiðlum í gegnum tíðina.
Woods fjallar um fótbolta á TNT Sports í dag og nýtur mikilla vinsælda. Það á sér þó slæmar hliðar einnig.
„Það kom tímabil þar sem einn náungi var alltaf að senda sömu myndina. Ég hef séð hana annars staðar svo þetta var ekki bara til mín. En það var mynd af ömmu einhvers í búri,“ segir Woods.
„Hann sagði alltaf: „Laura, amma er svöng og vill komast úr búrinu en ég hleypi henni bara út ef þú samþykkir að fara á stefnumót með mér.“ Ég svaraði þessu auðvitað ekki.
Viku seinna kom hann svo kannski aftur og sagði að amma hans væri enn í búrinu, að ég ætti að hjálpa henni út.
Þetta eru með skrýtnari skilaboðum sem ég hef fengið en þau eru mörg.“