Aaron Ramsey, leikmaður Cardiff, greinir frá því að hann hafi hafnað risatilboði til að ganga í raðir liðs í Sádí Arabíu í sumar.
Ramsey ákvað að skrifa undir samning við uppeldisfélag sitt Cardiff en hann er fyrrum leikmaður bæði Arsenal og Juventus.
Augljóslega hefði Ramsey fengið mun betur borgað í Sádí Arabíu en hann ákvað að snúa aftur heim, eitthvað sem fáir hefðu gert.
,,Það er mikið rætt um Sádí Arabíu þessa dagana og þá leikmenn sem fara þangað. Þú græðir svo sannarlega á því fjárhagslega. Margir leikmenn geta ekki horft framhjá því,“ sagði Ramsey.
,,Ég ákvað að hafna upphæð sem hefði breytt lífi fjölskyldunnar. Upphæðin var gríðarleg en ég hef verið heppinn á mínum ferli og hef gert vel.“
,,Þetta var alvöru tilboð en um leið og ég áttaði mig á því að ég gæti farið aftur til Cardiff þá fór allt í að koma því í gegn.“