Það eru svo sannarlega ekki allir sem hafa upplifað það sama og maður að nafni Cristian Salamanca sem kemur frá Argentínu.
Salamnca starfaði sem húsvörður í Miami er hann sá tækifærið á að hitta Lionel Messi, leikmann Inter Miami, í fyrsta sinn.
Messi gekk í raðir Miami í sumar en hann er fyrrum leikmaður bæði PSG og Barcelona og vann þá HM með Argentínu í fyrra.
Salamanca var tilbúinn að gera mikið til að fá eiginhandaráritun Messi, svo mikið að hann missti starf sitt sem húsvörður.
,,Það var mitt starf að hreinsa baðherbergin þar sem rútan var lögð. Sem betur fer þá var ég á staðnum þegar allir leikmennirnir gengu út,“ sagði Salamanca.
,,Síðasti leikmaðurinn til að ganga út var Messi, það fékk mig til að öskra: ‘Sæll, heimsmeistari!’
,,Hann sneri sér við og horfði á mig. Ég fór úr vinnupeysunni og undir henni var ég klæddur í argentínsku landsliðstryejuna og var líka með penna.“
,,Hann gaf mér eiginhandaráritun en öryggisverðirnir voru mættir á staðinn um leið og ég var rekinn. Ég myndi þó aldrei taka þetta til baka.“