Fyrrum enski landsliðsmaðurinn Andy Carroll sá strax eftir því að hafa skrifað undir hjá West Bromwich Albion árið 2022.
Carroll spilaði aðeins 15 leiki fyrir West Brom eftir að hafa komið frá Reading en nokkrum mánuðum seinna var hann snúinn aftur til þess síðarnefnda.
Carroll var alls ekki hrifinn af umhverfinu hjá West Brom og vildi komast burt í raun um leið eftir að hafa skrifað undir.
,,Ef ég á að vera hreinskilinn þá sá ég eftir þessari ákvörðun aðeins degi seinna,“ sagði Carroll sem lék níu landsleiki fyrir England.
Það var svo rifjað upp þegar Carroll skaut á sinn fyrrum stjóra, Steve Bruce, sem var látinn fara frá félaginu.
Carroll var ekki inni í myndinni hjá Bruce og var nokkuð ánægður með þá ákvörðun að láta hann fara en kom því fram á athyglisverðan hátt.
,,Það er alltaf sorglegt að sjá fólk fá sparkið. Sérstaklega þegar við hefðum alltaf fengið þrjú stig um helgina. Leiðinlegt en svona er fótboltinn,“ sagði kaldhæðinn Carroll.
,,Þú nærð ekki í úrslitin, svona virkar leikurinn í lok dags. Þú þarft að halda leikmannahópnum saman og leggja þitt í sölurnar sem stjóri og fá hópinn á þitt band.“