Stjarnan er með afar ungt og spennandi lið sem hefur heillað í Bestu deild karla undanfarið. Liðið seldi hinn 19 ára gamla Ísak Andra Sigurgeirsson til Norrköping á dögunum og er jafnaldri hans Guðmundur Baldvin Nökkvason einnig mættur til Svíþjóðar, þar sem hann skrifaði undir hjá Mjallby.
Ólafur Jóhannesson segir það hins vegar koma sér á óvart að annar leikmaður Stjörnunnar skuli ekki vera farinn í atvinnumennsku enn þá.
Sá leikmaður er hinn 19 ára gamli Eggert Aron Guðmundsson. Hann hefur farið á kostum undanfarið með Stjörnunni og var einnig frábær á EM U19 ára landsliða.
Þjálfarinn reynslumikli Ólafur Jóhannesson starfar nú við umfjöllun um Bestu deildina á Stöð 2 Sport og ræddi hann þetta þar í gær.
„Að Eggert skuli ekki vera farinn kemur mér á óvart,“ sagði Ólafur.
„Af hverju er hann ekki farinn? Hann er ekkert síðri en Ísak og er betri en Guðmundur.
Hvað sjá menn sem verður til þess að þeir þora ekki að taka hann? Ég skil það ekki alveg.“