Margir spáðu Grindvíkingum toppsætinu í Lengjudeild karla fyrir tímabil en gengið hefur verið arfaslakt. Eftir fína byrjun á tímabilinu er liðið nú í tíunda sæti, 4 stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Helgi tók við Grindavík fyrir tímabil en fyrr í dag sagði Fótbolti.net frá því að hann væri á útleið. Haukur Guðberg Einarsson formaður staðfesti tíðindin svo við 433.is fyrir skömmu.
„Við áttum gott og farsælt samstarf þó stutt hafi verið og hann er algjör toppmaður og toppþjálfari,“ segir Haukur við 433.is, en uppsögnin var að frumkvæði Helga.
Haukur er afar þakklátur fyrir samstarfið með Helga.
„Þetta samstarf varð til þess að við verðum vinir alla ævi. Okkur þykir þetta sárt.“
Nú hefst vinna hjá Grindavík að leita að eftirmanni Helga.
„Við erum í bullandi vinnu. Þetta gerðist hratt og stjórnin er að vinna hörðum höndum að því að finna eftirmann hans þessa stundina.“
Verði nýr þjálfari ekki fundinn fyrir næsta leik gegn gegn Vestra á miðvikudag verður Milan Stefán Jankovic aðalþjálfari í þeim leik.