Dwight Yorke, goðsögn Manchester United, segir að það séu góðar líkur á því að stuðningsmenn liðsins grátbiðji um að fá David de Gea aftur til félagsins í vetur.
Andre Onana var keyptur til Man Utd til að taka við af De Gea sem var aðalmarkvörður liðsins í yfir 10 ár.
Onana lék síðast með Inter og fyrir það Ajax en Yorke telur að hann sé ekki eins góður markmaður og Spánverjinn.
,,Ég hef sagt það áður að Manchester United þarf að passa sig á því hvað þeir biðja um,“ sagði Yorke.
,,Miðað við allt það góða sem hann hefur gert fyrir félagið þá endaði ferill hans þarna á slæman hátt. Ég vona að það komi ekki í bakið á félaginu.“
,,Að mínu mati er Onana ekki jafn góður og De Gea, fólk þarf að horfa á hann vandlega. Ég hef séð Onana áður, enska úrvalsdeildin er í öðrum gæðaflokki.“
,,Ég mun fylgjast með honum mjög vandlega og fólkið sem gagnrýndi De Gea mun örugglega grátbiðja um að fá hann aftur til félagsins. Ég vona að það gerist ekki.“