Einhverjir muna eftir nafninu David Mendes da Silva en hann lék sjö landsleiki fyrir Holland á sínum tíma.
Da Silva er 40 ára gamall í dag en hann spilaði síðast með Sparta Rotterdam í Hollandi árið 2017.
Hann lék sem varnarsinnaður miðjumaður og á einnig að baki leiki fyrir NAC Breda, AZ Alkmaar, Panathinaikos og Red Bull Salzburg.
Eftir að hafa lagt skóna á hilluna hefur Da Silva komið sér í töluverð vandræði og var nýlega dæmdur í sjö ára fangelsi.
Da Silva var dæmdur fyrir það að smygla inn kókaíni í Rotterdam en um var að ræða næstum 200 kíló af eiturlyfinu.
Næst á dagskrá eftir þann flutning var að flytja inn önnur 1300 kíló af efninu en hann var stuttu síðar handtekinn.
Ekki nóg með það er Da Silva dæmdur fyrir að borga opinberum starfsmanni 100 þúsund evrur í mútur.
Hann lék sjö landsleiki fyrir Holland frá 2007 til 2009.