Christian Pulisic, leikmaður AC Milan, viðurkennir að það sé ekki beint að hjálpa sér að undirbúningstímabil liðsins sé í Bandaríkjunum.
Pulisic er Bandaríkjamaður en hann skrifaði undir samning við Milan í sumar og kemur frá Chelsea.
Vængmaðurinn er með lítil sem engin tök á ítalska tungumálinu og að vera mættur aftur til heimalandsins svo snemma er ekki beint það besta.
Pulisic stóð sig vel í fyrsta leik og lagði upp tvö mörk er AC Milan vann sannfærandi 6-0 sigur á Lumezzane. Hann hefur síðan þá haldið uppteknum hætti og er að vinna stuðningsmenn liðsins á sitt band.
,,Þetta mun svo sannarlega ekki hjálpa mér að læra ítölsku því ég tala ensku við alla hérna en tilfinningin er góð,“ sagði Pulisic.
,,Þetta var stór stund fyrir mig, þetta er ný byrjun. Ég er svo spenntur að byrja tímabilið og að sýna hvað í mér býr.“