Tottenham spilaði æfingaleik gegn liði sem fáir þekkja í vikunni en liðið ber nafnið Lion City.
Um er að ræða lið í efstu deild í Singapore og náði liðið óvænt forystu gegn stórliðinu eftir aðeins 14 mínútur.
Tottenham tókst að jafna metin undir lok fyrri hálfleiks er Harry Kane skoraði úr vítaspyrnu.
Tottenham bætti síðar við fjórum mörkum í síðari hálfleiknum en Brassinn Richarlison skoraði þrennu.
Það sem vekur mesta athygli er að Tottenham átti 44 skot að marki Lion City en tókst aðeins að skora fimm mörk.
Lion City átti aðeins sex skot að marki sem var minna en þau skot Tottenham sem fóru á rammann eða 13 talsins.
Ansi auðvelt verkefni fyrir Tottenham að lokum en það er ekki algengt að lið eigi yfir 40 marktilraunir í einum leik.