Real Madrid og Manchester United áttust við í æfingaleik í Bandaríkjunum í nótt. Lisandro Martinez átti svakalega tæklingu á Jude Bellingham í leiknum.
Leiknum lauk með 2-0 sigri Real Madrid þar sem Bellingham og Joselu skoruðu mörkin.
Martinez er þekktur fyrir það að vera ansi harður í horn að taka og átti einnig grófa tæklingu á Bukayo Saka í síðasta leik United á undirbúningstímabilinu.
Hann straujaði svo Bellingham í nótt sem var allt annað en sáttur.
Bellingham sagði þó eftir leik að Martinez hafi rætt við sig eftir að hann kom af velli.
„Þegar ég gekk út af í hálfleik var ég brjálaður. En þegar hann kom út af kom hann til mín og óskaði mér alls hins besta. Ég bar mikla virðingu fyrir því,“ sagði Bellingham eftir leik.
„Það sem gerist á vellinum helst þar. Ég óskaði honum líka góðs gengis eftir leik. Ég ber virðingu fyrir því þegar tveir leikmenn eru að reyna að vinna leikinn fyrir sín lið inni á vellinum en geti borið virðingu fyrir hvorum öðrum eftir leik.“
Bellingham segist vera aðdáandi Martinez.
„Hann er frábær keppnismaður og leikmaður. Alveg eins og ég vill hann bara vinna. Stundum gengur það of langt.“