Helgi Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur, er öruggur með sitt starf þrátt fyrir erfitt gengi undanfarið. Þetta segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður félagsins í samtali við 433.is.
Grindavík var af mörgum spáð toppsæti Lengjudeildar karla fyrir tímabil en gengið hefur verið undir væntingum. Nú hefur liðið tapað þremur leikjum í röð og aðeins unnið einn af síðustu níu í deild.
„Hann er okkar þjálfari og við stöndum með honum,“ segir Haukur við 433.is.
Þá segir Haukur einnig að Guðjón Pétur Lýðsson verði um kyrrt hjá Grindavík þrátt fyrir einhverjar sögusagnir um að hann gæti farið annað.
Guðjón Pétur hefur ekki spilað síðustu tvo leiki.
Grindavík situr í áttunda sæti Lengjudeildarinnar, 2 stigum frá umspilssæti.