Robbie Fowler, goðsögn Liverpool, hefur heldur betur fengið að heyra á það á samskiptamiðlum eftir ummæli sem hann lét falla um sitt nýja starf.
Fowler hefur skrifað undir hjá Al-Quadsiah í Sádí Arabíu en liðið er í næst efstu deild þar í landi. Hann er með það verkefni að stýra liðinu í næst efstu deild.
Fowler var spurður út í mögulega komu Jordan Henderson til landsins en hann ku vera að yfirgefa Liverpool fyrir lið Al-Ettifaq. Talið er að Henderson fái 700 þúsund pund á viku í Sádí Arabíu.
Fowler neitar að gagnrýna Henderson fyrir það að skoða sína möguleika og harðneitar því sjálfur að hann sé að elta peningana í Sádí Arabíu.
Fáir eru að kaupa það að Fowler hafi fært sig til landsins fyrir metnaðarfullt verkefni en dæmi nú hver fyrir sig.
,,Við skulum hafa eitt á hreinu, ég ætla ekki að dæma Jordan, Steven Gerrard eða nokkurn mann sem hefur fært sig til Sádí Arabíu eða er að íhuga að gera það,“ sagði Fowler.
,,Það snýst ekkert um að við séum að elta peningana – það er einfaldlega ekki rétt. Ég hef tekið að mér starf í næst efstu deild Sádí Arabíu því ég er metnaðarfullur þjálfari og vil sanna mig í starfinu.“