Það ætlaði allt að verða vitlaust í leik Gróttu og Grindavíkur sem fór fram í Lengjudeildinni í dag.
Um var að ræða mikilvægan leik á milli þessara liða en Grótta hafði óvænt betur, 2-0.
Grótta hefur nú gefið frá sér yfirlýsingu og greinir frá árás sem átti sér stað eftir lokaflautið.
Þar kemur fram að leikmaður og starfsmaður Grindavíkur hafi ráðist á leikmenn heimaliðsins.
Afskaplega alvarlegt mál sem Grótta mun nú vinna í, í samvinnu með KSÍ.
Yfirlýsing:
Í kjölfar atvika eftir leik Gróttu og Grindavíkur í Lengjudeild karla fyrr í dag vill stjórn knattspyrnudeildar Gróttu koma eftirfarandi á framfæri.
Við staðfestum að eftir leikinn var ráðist á leikmann Gróttuliðsins við búningsklefa af leikmanni Grindavíkur. Aðili úr starfsliði Grindavíkur réðist einnig að öðrum leikmanni Gróttu í kjölfarið. Stjórn deildarinnar lítur málin alvarlegum augum og treystir því að tekið verði á þeim af þar til bærum aðilum.
Grótta mun ekki tjá sig um önnur atvik sem hafa verið í umræðunni né heldur frekar um þau atvik sem fjallað er um hér að ofan. Farin verður formleg leið milli Gróttu, Grindavíkur og KSÍ til að útkljá málin.