Komandi vika verður mikilvæg fyrir framtíð Mason Mount og mun líklega leiða í ljós hvort kappinn endi hjá Manchester United eða ekki.
Hinn 24 ára gamli Mount á ár eftir af samningi við uppeldisfélag sitt Chelsea og ætlar ekki að framlengja. Hann vill helst vera seldur í sumar en er opinn fyrir því að spila út samning sinn og fara frítt næsta sumar.
United er líklegasti áfangastaður Mount en Chelsea hefur hafnað þremur tilboðum félagisns í enska miðjumanninn. Það síðasta hljóðaði upp á 55 milljónir punda.
Chelsea vildi upphaflega 75 milljónir punda fyrir Mount en hefur nú lækkað verðmiðann niður í 65 milljónir.
United er ekki til í að hækka tilboð sitt fyrir leikmann sem á aðeins ár eftir af samningi en er opið fyrir því að hátta greiðslum á hátt sem hentar Chelsea betur en síðasta tilboð hefði gert.
Helstu miðlar segja að bjartsýni sé á að skiptin muni ganga í gegn. Daily Mail segir jafnframt að heimildamenn sínir tengdir Chelsea telji að niðurstaða fáist í málið á komandi viku og að það muni ekki dragast langt inn í sumarið.