Luton er komið í úrslitaleik umspilsins í ensku B-deildinni.
Þetta varð ljóst eftir sigur liðsins á Sunderland í seinni leik liðanna í undanúrslitum í kvöld.
Fyrri leiknum lauk með 2-1 sigri Sunderland og því kom ekkert annað en sigur til greina fyrir Luton í kvöld.
Gabriel Osho kom heimamönnum í Luton yfir á 10. mínútu leiksins.
Skömmu fyrir hálfleik bætti Tom Lockyer við marki.
Lokatölur 2-0 og Luton er á leið á Wembley í hreinan úrslitaleik um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Þar verður andstæðingurinn annað hvort Middlesbrough eða Coventry. Seinni leikur þeirra fer fram á morgun en þeim fyrri lauk með markalausu jafntefli.