Kjartan Henry Finnbogason hefur gefið út yfirlýsingu vegna atvika í leik FH gegn Víkingi R. í Bestu deild karla í gær. Var hann talinn heppinn að sleppa við að vera vikið af velli í leiknum.
Leiknum lauk með 2-0 sigri Víkings en umræðan eftir hann hefur öll snúist um Kjartan.
Í fyrri hálfleik gaf Kjartan Nikolaj Hansen, leikmanni Víkings, olnbogaskot svo hann lá blóðugur eftir. Sparkaði hann einnig í átt að andliti Birnis Snæs Ingasonar.
Voru sérfræðingar Stöðvar 2 Sports til að mynda sammála um það að Kjartan hefði átt að fá að fjúka út af í fyrri hálfleik.
„Eftir að hafa séð þessi leiðinlegu atvik aftur að þá sé ég mikið eftir þessu „pirrings“ sparki í átt að Birni. Hefði getað endað illa, gerði það ekki en á aldrei að eiga sér stað,“ segir Kjartan í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.
Hann tekur þó fyrir að olnbogaskotið á Hansen hafi verið viljaverk, eins og einhverjir hafa haldið fram.
„Það að ég hafi viljandi gefið Niko olnbogaskot er svo fjarri lagi, þetta var algjört óviljaverk. Ég var að dekka einn sterkasta framherja deildarinnar og reyna að passa að hann kæmist ekki fram fyrir mig. Sem betur fer slapp hann með blóðnasir. Annað eins hefur gerst á fótboltavelli.
Óska Víkingum nær og fjær til hamingju með sigurinn.“
— Kjartan Henry Finnbogason (@kjahfin) May 15, 2023