Gary Neville, fyrrum fyrirliði Manchester United hjólaði í núverandi fyrirliða liðsins, Bruno Fernandes eftir niðurlægingu liðsins gegn erkifjendunum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Leik dagsins lauk með 7-0 sigri Liverpool, eitthvað sem sparkspekingar Sky Sports, þar á meðal Gary Neville, eru sammála um að sé niðurlæging fyrir félagið.
,,Það eru ákveðnir hlutir sem ég sá í seinni hálfleik leiksins sem eru algjör skömm fyrir leikmenn Manchester United.
Ég ætla að byrja á Bruno Fernandes, ég hef fengið nóg af því að sjá hann veifa höndum inn á vellinum framan í liðsfélaga sína, hef fengið nóg af því að sjá hann ekki skila sér til baka í vörnina.
Hann vælir út í allt og alla, fer niður of auðveldlega líkt og við sáum í dag þegar að ýtt var í bringuna á honum og hann hélt fyrir andlitið í kjölfarið.
Hann verður að hegða sér og skila frammistöðu sem er fyrirliða sæmandi, frammistaða hans í dag er ekki fyrirliða sæmandi.“
Neville er fullviss um að Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United muni lesa yfir Fernandes á næstu 48 klukkustundunum.
,,Hann hefur gert það nokkrum sinnum yfir yfirstandandi tímabil og ég býst við því að allt fari í eðlilegt horf í næstu viku. Þeir þurfa hins vegar að vinna fyrir þessu.
Þeir voru að tapa 7-0 á móti Liverpool í treyju Manchester United, það er skömm að því.“