Það er væntanlega ekki hátt á þeim risið, fyrrum leikmönnum Manchester United og núverandi sparkspekingum Sky Sports, Gary Neville og Roy Keane eftir 7-0 tap Manchester United gegn erkifjendunum í Liverpool.
Leikið var á Anfield, heimavelli Liverpool þar sem heimamenn fóru á kostum og kipptu Manchester United rækilega niður á jörðina.
Fyrir leik höfðu sparkspekingar Sky Sports velt því fyrir sér hvernig leikurinn myndi spilast og á endanum fara.
Graeme Souness, fyrrum leikmaður Liverpool hafði tröllatrú á sínum mönnum fyrir leik og kom með spá sem Neville og Keane hlógu að.
,,Ég býst við því að þeir mæti tilbúnir til leiks í dag. Það er í raun langt síðan ég hef verið eins öruggur með sigur Liverpool í leik gegn Manchester United. Ég hef bara þá tilfinningu að þeir muni mæta til leiks í dag.“
Eftir að hafa hlustað á þessa spá áttu Roy Keane og Gary Neville erfitt með að halda niðrí sér hlátrinum en þeir spáðu því báðir að Manchester United myndi bera sigur úr býtum.