Chelsea hefur enn áhuga á Jude Bellingham og ætlar sér að taka þátt í kapphlaupinu um hann. Þetta kemur fram í Daily Telegraph.
Bellingham er einn allra eftirsóttasti leikmaður heims. Hann er á mála hjá Borussia Dortmund en það þykir ansi líklegt að enski miðjumaðurinn fari annað næsta sumar.
Talið er að Liverpool og Real Madrid leiði kapphlaupið um Bellingham, sem verður líklega rándýr.
Chelsea hefur hins vegar áhuga en er samkvæmt fréttum langt frá því að vera líklegasti áfangastaður Bellingham .
Frá komu Todd Boehly til félagsins hefur Chelsea eytt yfir 600 milljónum punda. Liðið situr í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Chelsea áttar sig á að það verður ansi erfitt að klófesta Bellingham en hefur ekki gefið upp vonina.
Bellingham hefur verið frábær fyrir Dortmund frá því hann kom til félagsins frá Birmingham 2020. Frábær frammistaða hans með enska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í Katar var ekki til að minnka áhugann á honum.