Andy Naylor, sem starfar við umfjöllun um Brighton fyrir The Athletic, hefur svarað stuðningsmönnum Arsenal eftir áreiti síðustu daga.
Naylor hefur verið duglegur að flytja tíðindi af málum Moses Caicedo, miðjumanni Brighton.
Arsenal hafði mikinn áhuga á leikmanninum og bauð tvisvar í hann. Brighton stóð hins vegar fast á sínu og vildi ekki selja hann sama hvað.
Naylor hafði haldið því fram að það væri engin leið að hagga Brighton í viðræðunum og segist hann hafa orðið fyrir áreiti af hendi stuðningsmanna Arsenal á internetinu í kjölfarið.
„Til allra Arsenal stuðningsmanna sem hafa drekkt síðunni minni undanfarið með áreiti. Ég var bara að segja sannleikann. Þið vilduð bara ekki heyra það sem var verið að segja ykkur,“ segir Naylor.
Svo virðist sem hann hafi haft rétt fyrir sér allan tímann. Arsenal sneri sér að Jorginho hjá Chelsea í stað Caicedo.