Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands sat fyrir svörum í sjónvarpsþætti 433.is á Hringbraut í gærkvöldi. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er nú statt í Portúgal þar sem liðið leikur tvo æfingaleiki. Fyrri leikurinn fór fram á sunnudag er liðið gerði 1-1 jafntefli við Eistland. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði mark Íslands af vítapunktinum í síðari hálfleik en skömmu áður hafði hann klikkað á vítaspyrnu.
„Það sýnir úr hverju Andri Lucas er gerður. Hann er mikill markaskorari,“ segir Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins.
„Það tók okkur 15-20 mínútur að ná áttum. Við vorum óánægðir með hvernig við byrjuðum leikinn. Við vorum ekki alveg að finna þau svæði sóknarlega sem við vildum finna. Völlurinn var erfiður upp á að spila hratt. Við vildum komast inn fyrir þá en náðum því ekki. Það var sama með varnarleikinn, hann var ekki nógu góður fyrsta korterið. En eftir það var ég ánægður með hvernig við spiluðum þetta. Það var margt jákvætt í þessu en fullt af hlutum sem við getum bætt.“
Arnar Þór var að prófa nýtt leikkerfi í leiknum við Eista og er það gert til þess að ekki sé of auðvelt að ráða í leik íslenska landsliðsins.
„Hugmyndin í gær var að vera í 4-4-2 með tígul á miðjunni. Við höfum verið að vinna í tvö ár í 4-3-3 og erum að fara í mikilvægt ár. Við viljum ekki vera of fyrirsjáanlegir og gera aðra hluti. Þegar styrkleikar okkar eru skoðaðir held ég að þetta gæti hentað okkur vel í ákveðnum leikjum.“
Nökkvi Þeyr Þórisson þreytti frumraun sína í leiknum á sunnudag og átti fína spretti. Þessi stóri og stæðilegi sóknarmaður átti frábært sumar með KA í Bestu deildinni á síðasta ári en steig síðan skrefið til Belgíu þar sem hann hefur spilað í næstefstu deild og hefur frammistaða hans þar vakið athygli.
„Nökkvi stóð sig frábærlega á Íslandi síðasta sumar og hefur verið að spila vel með Beerschot í Belgíu. Hann hefur gífurlegan hraða og það er mikil dýpt í hans leik. Við nýttum ekki styrkleika hans fyrsta korterið í gær en svo kom það. Við vorum virkilega ánægðir með hans leik. Þetta var hans fyrsti leikur og það er mjög mikilvægt fyrir alla þessa stráka að kynnast umhverfinu.“
Viðtalið er í heild hér að neðan.