Ef marka má frétt Goal er ólíklegt að Lionel Messi fari frá Paris Saint-Germain næsta sumar. Félagið ætlar að bjóða honum nýjan samning eftir Heimsmeistaramótið í Katar.
Núgildandi samningur Messi við PSG rennur út næsta sumar. Hann hefur verið á mála hjá félaginu síðan sumarið 2021, þegar hann kom frá Barcelona.
Hann hefur verið sterklega orðaður við Inter Miami í MLS-deildinni vestanhafs, sem og endurkomu til Katalóníu.
Goal segir hins vegar að PSG ætli að bjóða Messi nýjan tveggja ára samning þegar hann snýr aftur af HM með argentíska landsliðinu.
Liðið er komið í 16-liða úrslit og mætir þar Áströlum á laugardag.
Messi hefur verið frábær með PSG á tímabilinu hingað til.