Miðjumaðurinn Matteo Guendouzi viðurkennir það fúslega að samband hans við Mikel Arteta hafi ekki verið gott hjá Arsenal.
Arteta er stjóri Arsenal í dag en Guendouzi var leikmaður liðsins áður en hann hélt endanlega til Marseille í Frakklandi.
Samband þeirra var aldrei nógu gott í London en Arteta virtist treysta meira á aðra leikmenn sem varð til þess að Guendouzi hélt annað.
Frakkinn hefur staðið sig mjög vel með Marseille og gerir sér vonir um að komast á HM í Katar í næsta mánuði.
,,Það er alveg rétt að samband okkar var ekki það besta. Ég reyndi alltaf að vinna mína vinnu og gaf allt í sölurnar á æfingum og í leikjum. Ég spilaði nokkra leiki undir honum og stóð mig mjög vel,“ sagði Guendouzi.
,,Hann kaus að velja aðra leikmenn og ég virði hans ákvörðun. Ég ákvað að fara því ég var enn ungur. Ég þurfti að fá að spila til að halda áfram að þróa minn leik, það er það mikilvægasta þegar þú ert ungur.“