Kylian Mbappe á í deilum við félag sitt, Paris Saint-Germain, þessa stundina.
Mbappe hefur verið í umræðunni síðan í gær en hann vill fara frá PSG. Voru margir hissa þegar tíðindin brutust út í gær. Mbappe skrifaði undir nýjan samning við PSG fyrir nokkrum mánuðum.
Flestir töldu í vor að Mbappe væri að fara frítt frá PSG og væri að ganga í raðir Real Madrid. PSG bauð Mbappe hins vegar samning sem hann gat ekki hafnað.
Mbappe er launahæsti knattspyrnumaður í heimi en hann er óhress með það að þurfa að spila sem fremsti maður. Franskir miðlar segja að PSG hafi lofað Mbappe að keyptur yrði framherji í sumar.
Einnig segir að Mbappe hafi fengið það loforð um að Neymar yrði seldur. Hvorugt gerðist og nú vill Mbappe helst fara frá PSG strax í janúar.
Enska götublaðið The Sun hefur tekið saman fimm félög sem Mbappe gæti farið til.
Real Madrid
Félagið sem Mbappe langar mest að fara til. Var sterklega orðaður við þá í sumar.
Liverpool
Hefur verið nefndur til sögunnar sem eini kostur Mbappe, vilji hann fara strax í janúar.
Chelsea
Todd Boehly, bandarískur eigandi Chelsea, er metnaðarfullur og vill stærstu nöfnin á Brúnna.
Manchester United
Eitt allra stærsta félag heims og yfirleitt nefnt til sögunnar í tengslum við stóra leikmenn. Geta þó ekki beðið upp á Meistaradeildarfótbolta í bili.
Manchester City
Eiga klárlega efni á Mbappe. Frakkinn myndi vinna með stórstjörnum, sem og Pep Guardiola. City berst um stærstu titlanna.