David Ornstein hjá The Athletic greinir nú frá því að það líti allt út fyrir að Christopher Nkunku, framherji RB Leipzig sé að ganga í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea. Félagið ætli sér að bjóða hærra verð en klásúla í samningi hans segir til um og forðast baráttu við önnur félög um hann.
Í færslu sem Ornstein setur fram á Twitter segir hann að þó félagsskiptaglugginn sé lokaður séu forráðamenn Chelsea ekki á þeim buxunum að slaka á heldur sé verið að vinna í því statt og stöðugt að finna leiðir til að bæta leikmannahópinn.
Nkunku er 24 ára gamall. Hann ólst upp hjá París Saint-Germain en gekk til liðs við RB Leipzig sumarið 2019.
Nánast allt klárt en Chelsea vill skafa af verðinu
Á dögunum sögðu nokkrir virtir blaðamenn í knattspyrnuheiminum frá því að hinn 24 ára gamli Nkunku hafi þegar gengist undir læknisskoðun hjá Chelsea. Hann er með ákvæði í sínum samningi um að hann megi fara frá Leipzig ef það berst tilboð upp á rúmar 52 milljónir punda og voru fréttirnar fyrst á þá leið að Chelsea ætlaði að freista þess að skafa aðeins af því verði.
Ornstein segir hins vegar að Chelsea ætli að gera gott betur og bjóða yfir verðið sem klásúlan segir til um vegna þess að hún tekur gildi eftir yfirstandandi tímabil. Með því að bjóða yfir sé hægt að klára málið strax og koma í veg fyrir baráttu við önnur félög um farmherjann.
Hjá Leipzig hefur Nkunku skorað 55 mörk í 148 leikjum og gefið 48 stoðsendingar.
„It seems one of Europe’s most exciting forwards is going to be joining this revolution at Stamford Bridge.“@David_Ornstein and @markchapman discuss Chelsea’s deal with Christopher Nkunku…
🎙️ 𝗧𝗛𝗘 𝗔𝗧𝗛𝗟𝗘𝗧𝗜𝗖 𝗙𝗢𝗢𝗧𝗕𝗔𝗟𝗟 𝗣𝗢𝗗𝗖𝗔𝗦𝗧
— The Athletic UK (@TheAthleticUK) October 4, 2022