Jamie Carragher, goðsögn Liverpool, hefur valið þá tvo leikmenn sem hafa verið bestir í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Enska deildin er í pásu þessa stundina eins og stærstu deildir Evrópu þar sem landsleikjahlé er í gangi.
Byrjunin hefur þó verið ansi áhugaverð og er gaman að sjá nýja leikmenn standa sig vel hjá nýjum vinnuveitendum.
Carragher nefnir leikmenn Manchester City og Arsenal sem þá bestu hingað ti en bæði lið hafa virkað mjög spennandi.
Carragher segir að Erling Haaland hjá Man City og Gabriel Jesus hjá Arsenal hafi verið bestir hingað til á Englandi.
,,Þetta hefur verið frábær byrjun á tímabilinu. Augljóslega stendur Haaland upp úr, hann og Jesus. Þeir hafa verið stórkostlegir,“ sagði Carragher.
Báðir þessir leikmenn skiptu um félag í sumar en Haaland kom frá Dortmund og var arftaki Jesus sem kom til Arsenal frá einmitt Man City.
Haaland hefur nú þegar skorað 11 sinnum í sjö deildarleikjum og stefnir klárlega á að bæta markametið.