Mesut Özil kom ekki með Istanbul Basaksehir til Íslands til að mæta Breiðabliki. Liðin eigast við í fyrri leik sínum í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar annað kvöld.
Özil er kominn stutt á veg í undirbúningi sínum fyrir komandi leiktíð í Tyrklandi og er að glíma við smávægileg meiðsli.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, sat fyrir svörum á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í dag. Hann viðurkenndi þar að það hefði verið gaman að mæta Özil.
„Það eru vonbrigði. Maður hefði viljað stimpla hann aðeins hérna á gervigrasinu,“ sagði Höskuldur.
Eins og flestir vita er Özil frægastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal og Real Madrid. Þá varð hann heimsmeistari með þýska landsliðinu árið 2014.