Knattspyrnusambandið var að tilkynna tvær breytingar á U21 landsliðshóp karla fyrir leikinn gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni EM.
Valgeir Valgeirsson, leikmaður HK, og Logi Tómasson, leikmaður Víkings koma inn í staðinn fyrir Finn Tómas Pálmason og Atla Barkarson.
Finnur er að glíma við meiðsli og Atli var kallaður inn í A-landsliðið fyrr í dag vegna meiðsla Willums Þórs Willumssonar.
Strákarnir í U21 liðinu eiga enn veika von um að komast upp úr riðlinum en liðið er fimm stigum á eftir Grikklandi þegar tveir leikir eru eftir og mæta Hvíta-Rússlandi á miðvikudaginn.