Tottenham tók á móti Burnley í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í dag í mikilvægum leik fyrir bæði lið. Tottenham er á höttunum eftir Meistaradeildarsæti meðan Burnley er í bullandi fallbaráttu.
Harry Kane kom heimamönnum yfir úr vítaspyrnu á lokasekúndum fyrri hálfleiks eftir að boltinn hafði farið í höndina á Ashley Barnes.
Burnley átti nokkrar góðar sóknir í síðari hálfleik en tókst ekki að koma boltanum í netið og lokatölur 1-0 sigur Spurs.
Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Tottenham sem er með 68 stig, tveimur stigum meira en Arsenal sem á leik til góða gegn Newcastle á St. James’ Park annað kvöld.
Burnley er í 17. sæti með 34 stig, jafnt Leeds að stigum en Leeds er með lakari markatölu.