Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, útilokar ekki að setja Kepa Arrizabalaga inn á gegn Liverpool í úrslitum ensku bikarkeppninnar á morgun fari leikurinn í vítaspyrnukeppni.
Tuchel setti Kepa inn á í stað Edouard Mendy undir lok framlengingarinnar þegar liðin mættust í úrslitum enska deildarbikarsins fyrr á árinu.
Spánverjanum tókst ekki að verja vítaspyrnu og klúðraði svo þegar hann fór sjálfur á punktinn er Liverpool vann níunda deildarbikartitilinn í sögu félagsins.
„Ég segi ykkur það ekki. Ég er með skoðun á því. Þið fáið að sjá hvað gerist ef svo fer,“ sagði Tuchel þegar hann var spurður hvort hann hafi gert einhver plön ef ske kynni að leikurinn endaði í vítaspyrnukeppni.
„Við nálgumst alltaf leikinn þannig að við sjáum fyrst hvernig fer og hvort við eigum skiptingu eftir. Það er aldrei gert fyrr. Við erum með plan. Ég er svolítið tvístígandi með hvað er hægt að æfa mikið,“ bætti Tuchel við.