Breiðablik tók á móti Stjörnunni í Bestu deild karla í kvöld.
Dagur Dan Þórhallson kom heimamönnum yfir eftir stundarfjórðung. Tæpum tíu mínútum síðar slapp Jason Daði Svanþórsson í gegn og setti boltann undir Harald Björnsson í marki Stjörnunnar. Staðan orðin 2-0.
Guðmundur Baldvin Nökkvason minnkaði muninn fyrir Stjörnuna með marki beint úr hornspyrnu á 37. mínútu. Blikar vildu meina að gestirnir hefðu gerst brotlegir í aðdraganda marksins en dómarinn sá lítið að þessu.
Stjarnan sýndi mikinn karakter í seinni hálfleik og Blikum tókst ekki að finna þriðja markið. Emil Atlason jafnaði leikinn með marki á 79. mínútu.
Heimamenn svöruðu þessu hins vegar með sigurmarki á 85. mínútu. Þá skoraði Viktor Örn Margeirsson flott skallamark. Lokatölur 3-2.
Blikar eru á toppnum með fullt hús stiga eftir fimm leiki. Stjarnan er í fjórða sæti með átta stig.