Antonio Conte er hrifin af þróuninni sem hefur verið í gangi hjá Liverpool síðustu ár og vill sjá það sama gerast hjá Tottenham. Liðin mætast annað kvöld í ensku úrvalsdeildinni.
Conte sagði frá því á blaðamannafundi að Tottenham þurfi að eyða miklum fjárhæðum í leikmenn í sumar til þess að geta náð árangri eða vonast eftir kraftaverki.
„Til þess að minnka muninn á þessum liðum þurfum við að eyða gríðarlega miklum fjárhæðum því við þurfum að kaupa mikilvæga leikmenn. Svona er þetta bara og þetta verður maður að vita því annars getum við ekki snúið genginu við nema bara með því að vonast eftir kraftaverki,“ sagði Conte á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Liverpool.
„Liverpool réð Jurgen fyrir sjö árum því þeir vildu byggja eitthvað sérstakt og sjá Liverpool keppa um stóru titlana aftur og halda áfram með sögu Liverpool. En þegar þú villt byggja eitthvað sérstakt þarftu tíma og þolinmæði. Liverpool er gott dæmi um það.“