Árangur Manchester City hefur verið ótrúlegur síðustu ár undir stjórn Pep Guardiola. Liðið hefur unnið 8 titla frá 2018 og allt lítur út fyrir að liðið vinni ensku úrvalsdeildina í fjórða sinn á fimm árum. Eini titilinn sem liðinu hefur ekki tekist að vinna er Meistaradeild Evrópu.
Manchester City komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra en liðið tapaði þar fyrir Chelsea.
Kevin De Bruyne telur að Manchester City verði að vinna Meistaradeildina því það muni breyta því hvernig fólk lítur á klúbbinn.
„Ef við vinnum Meistaradeildina þá mun það breyta því hvernig fólk lítur á klúbbinn. Við höfum ekki unnið hana ennþá og það er í raun eina gagnrýnin sem félagið fær. En við getum breytt því,“ sagði De Bruyne á blaðamannafundi.
Manchester City leikur gegn Real Madrid í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld. Fyrri leikur liðanna var stórskemmtilegur en Manchester City sigraði hann 4-3. Á morgun kemur í ljós hvort liðið tryggir sér farseðilinn í úrslitaleikinn.