Birkir Bjarnason leikjahæsti landsliðsmaður í sögu Íslands mun vafalítið bera fyrirliðabandið þegar liðið mætir Finnlandi á morgun.
Birkir er reyndasti leikmaður liðsins og hefur átt góðu gengi að fagna í bláu treyjunni. Hann er nú í öðru hlutverki í breyttu liði og þarf að vera leiðtogi liðsins.
„Við höfum verið að ræða það innan hópsins, við ætlum að gera meiri kröfur á okkur. Við erum að fara að gera meira kröfur á sigur, um það snýst þetta. Að vinna leiki og koma okkur á betri stað, það væri gott að byrja árið á sigri,“ sagði Birkir á fundi í dag.
Birkir er á sínu fyrsta tímabili með Adana Demirspor í Tyrklandi, hann og liðið hafa spilað vel.
„Þetta er búið að vera mjög gaman og krefjandi, ég held að það séu ekki margir sem hefðu búist við því að við værum að berjast á toppnum. Við og stuðningsmenn gerum kröfur á að við gerum það gott, við ætlum okkur að berjast þarna. Það eru níu leikir eftir og núna ætlum við að reyna að berjast um Evrópusætin.“
„Ég kann mjög vel við mig þarna í Tyrklandi og í liðinu, það er búið að ganga vel hjá mér. Mér líður ótrúlega vel.“
Miklar breytingar urðu á landsliði Íslands á síðasta ári en Birkir hefur aldrei íhugað að hætta í landsliðinu.
„Nei, það hefur aldrei verið hingað til. Mér líður vel og finnst ótrúlega skemmtilegt að koma í hópinn og spila með landsliðinu. Ég er einbeittur og hlakka til að spila.“