Kristófer Kristjánsson blaðamaður á Morgunblaðinu skilur ekki hvers vegna Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ getur ekki dæmt í málefnum Fram og KR.
Nefndir sem er skipuð á ársþingi og heyrir ekki undir stjórn KSÍ taldi sig ekki geta unnið úr kærum KR og Fram er varðar endalok Íslandsmótsins. Aga og úrskurðarnefnd segir að ekki sé hægt að endurskoða ákvarðanir stjórnar. En KR mun áfrýja og Fram skoðar sitt mál.
KSÍ ákvað þann 30 október að blása öll Íslandsmóts af, umdeild ákvörðun. „Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vísaði í gær frá kærum KR og Fram um ákvörðun stjórnar KSÍ að hætta keppni á Íslandsmótinu þegar nokkrar umferðir voru óleiknar. Þótt niðurstaðan hafi verið fyrirsjáanleg þá get ég tæplega leynt vonbrigðum mínum,“ skrifar Kristófer Kristjánsson í Morgunblaðið í dag.
KR-ingar eru ósáttir enda fékk karlalið félagsins ekki tækifæri til að komast í Evrópusæti og kvennaliðið féll án þess að vera fallið úr deildinni. „ Grátt leiknir KR-ingar misstu af Evrópusæti en áttu leik til góða. Framarar urðu af úrvalsdeildarsæti á markatölu. Í skugga kórónuveirufaraldursins taldi stjórn KSÍ það hins vegar ógerlegt að halda mótinu áfram á þessari stundu. Það er skiljanlegt, aðgerðir yfirvalda gerðu hreyfingunni erfitt fyrir.“
Kristófer fer svo yfir reglugerð KSÍ sem sett var fram í sumar um að öll mót yrðu að klárast fyrir 1 desember, ljóst er að nýtt mót hefst ekki fyrr en í lok apríl á næsta ári. „Óskiljanlegt er að KSÍ hafi talið það lífsnauðsynlegt að klára mótið fyrir 1. desember. Næsta Íslandsmót hefst ekki fyrr en í apríl á næsta ári og varla til það mót í heiminum sem hefur lengra undirbúningstímabil. Það er greinilega ekki síður nauðsynlegt að Lengjubikarinn geti farið fram óáreittur á nýju ári.“
Kristófer segir það óskiljanlegt að málinu hafi verið vísað frá þar sem aga og úrskurðarnefnd geti ekki endurskoðað ákvarðanir stjórnar. „Óskiljanlegra er að úrskurðarnefndin vísaði málinu frá á grundvelli þess að hún getur ekki tekið til endurskoðunar ákvarðanir stjórnar KSÍ. Nú hafa félögin nokkurra daga umhugsunarfrest til að ákveða hvort þau áfrýi til áfrýjunardómstóls sambandsins. Margir óttast að hann taki sama pól í hæðina og vísi málunum frá án efnislegrar umfjöllunar.“
“Óskiljanlegast yrði ástandið ef sú yrði raunin og þá yrði maður að spyrja sig hver tilgangurinn með þessum kæruleiðum væri yfir höfuð? Ef dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að endurskoða ákvarðanir stjórnar þá er staðan einfaldlega sú að stjórn KSÍ er hafin yfir leikreglurnar og knattspyrnuhreyfingunni ber að lúta vilja hennar og geðþótta.“